Heilbrigðismál sjómanna | Sjómannaheilsa
 

Heilbrigðismál sjómanna

 • Sjómannsstarfið er ekki hægt að bera saman nema að hluta við störf í landi. Sjómenn eru mislengi á sjó allt frá einum degi upp í 1-2 mánuði og sumir eru við veiðar langt fjarri Íslandi. 
   
 • Vandamál sem upp kunna að koma geta verið margvísleg og oft þarf að leysa þau án aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks og því mikilvægt að einhver í áhöfn kunni til verka eða hafi reynslu, eins að auðvelt sé að leita eftir ráðgjöf.
 • Vinnan flokkast oftast undir þungavinnu og er stundum unnin við mjög erfiðar aðstæður. Hér þarf að huga að mörgu, mikið líkamlegt álag gefur álagsmeiðsli og löng útivera og fjarvera frá fjölskyldu getur líka gefið andleg vandamál.

Okkar reynsla
 
 • Í okkar starfi höfum við rekist á ýmis vandamál og einnig marga góða hluti.
   
 • Hér eru ýmsar upplýsingar sem koma upp í hugann þegar farið er yfir vinnu okkar undanfarin ár.
   
 • Rétt er að taka fram að hér er um að ræða togarasjómenn.
   
 • Ekki er um að ræða tæmandi lista, eingöngu það sem kemur fyrst upp .
 

Það er óhætt að segja að yfir 60% veikinda/slysaforfalla er vegna stoðkerfisvandamála. 
 
 
 • Slysin bera niður á útlimina og bak og veikindi eru oft vegna langvarandi álags eða rangra vinnustellinga.
 • Slysin sem gerast eru að okkar mati oftast vegna klaufaskapar sjómannsins sjálfs, vinnufélaga hans eða vegna slæms veðurfars.
 • Það verður aldrei of oft ítrekað að skrá uppákomur í “bókina” því hnykkur á bak í dag eða snúningur á hné getur gefið veruleg vandamál á morgun eða eftir viku. 
 • Það er mikilvægt að leita hjálpar fyrr en seinna þegar stoðkerfið er að kvarta, oft gengur mun betur að bæta/laga vandamál og ástæður þeirra ef fljótt er gripið inn í. Það er ekki gott að láta verk t.d. í öxl eða baki bíða von úr viti þar sem erfiðara getur þá verið að bæta og tekur oft langan tíma að ráða bót á vandamálunum.
 
 

 
Vinnuaðstaðan um borð
 • Við höfum farið um borð í nokkra frystitogara og gengið um vinnsludekk til þess að skoða vinnuaðstæður sem yfirleitt voru eins góðar og hægt var að hafa þær en stundum vantar uppá og hægt er að gera betur.
 • Það er aragrúi af litlum slysagildrum svo fara verður varlega laus pallur getur hæglega valdið stórslysi.
 • Við höfum bent mönnum á að vera á varðbergi gagnvart þessum smáu gildrum og láta vita af svo hægt verði að laga það sem ekki er í réttum skorðum. 
 • Komið hefur í ljós að munur er á því hvað áhafnir eru duglegar/viljugar að “rotera” á vinnsludekkinu þ.e. breyta til milli vakta eða á vöktum hvaða vinnu hver maður sinnir, við mælum með því að sjómenn verði duglegir við að breyta til, það gerir vinnuna og álagið ekki eins einhæft og er betra bæði fyrir huga og hönd – þó svo vinnslan gangi örlítið hægar fyrir sig er það ekki til langframa.
 • Það er einnig mikilvægt að menn gefi sér tíma í byrjun vaktar að stilla borð eða pall í sína hæð, rangar vinnustellingar eru til þess að búa til vandamál.
 


Mataræðið um borð og sjoppan
 
 • Í viðtölum við sjómenn varðandi matseldina og sjoppuna um borð verður að segjast að flestir eru mjög ánægðir með matinn en jafnvel of ánægðir þar sem maturinn er e.t.v. ekki eins hollur og menn hefðu óskað sér, of mikið bras og feiti of lítið af grænmeti.
   
 • Einn af matsveinunum sagði frá því að hann hafi bætti stöðuna mikið með því að hafa vel af grænmeti og láta grænmetið vera það fyrsta sem menn fá á hlaðborðinu, ekki hafa kjötmetið fremst, þá fer meira af því á diskinn, okkur finnst vakning vera hafin í matarmálum en enn má betur gera. 
   
 • Sumir hafa látið í það skína að sjoppan um borð sé alltof mikið notuð og einhver nefndi það að ef sjómaður þyrfti sjálfur að taka með sér kók fyrir túrinn myndi hann átta sig á því að þetta er kannski einum of mikið, varist of mikil sætindi, allt er best í hófi.

   

 

Heilsufarsskoðanir
 • Við höfum fengið marga sjómenn og landvinnslufólk í heilsufarsskoðanir þar sem farið er vítt og breitt yfir heilsufar, sjúkrasögu og lífstí lí viðtali og skoðun. Um heilsufarsskoðanir.
 • Hér kennir margra grasa í vandamálum en líka hefur komið fram að margir sjómenn og landvinnslufólk  er mjög vel á sig komið bæði andlega og líkamlega og hugsa mikið um eigin heilsu og vellíðan.
 • Algengustu vandamál sem við finnum og getum bætt er há blóðfita, hár blóðþrýstingur og ofþyngd.  Fyrir kemur að starfsmenn hafi áhyggjur af ákveðnum vandamálum, andlegum  eða tengdum hjarta og eða lungum og höfum við þá komið þeim áfram til sérfræðinga á þeim sviðum sem við eiga. 
 • Þegar upp er staðið er yfirleitt um að ræða mikla ánægju með viðtal og skoðun og oft leyst úr vandamálum á einfaldan hátt.
 • Við mælum mjög sterklega með því að allir fari í heilsufarsskoðanir reglulega það er ljóst að með því má bæta og jafnvel lengja líf og bæta lífsgæði.
 
 
 

Skilaboðin til sjómanna eru því:
 
 
Farið varlega!!!!!
Skráið öll slys í "Bókina"
Leitið hjálpar við vandamálum fyrr en seinna
Forðist slysagildrur og látið vita af misfellum á vinnustað
Skiptist á vinnustöðum
Borðið holla matinn 
Forðist sætindin úr sjoppunni
Verið meðvitaðir um líkamann (hlustið)
Farið í heilsufarsskoðun og læknisskoðun  reglulega og takið niðurstöðurnar  alvarlega
  

Helstu heilsufarsvandamál sjómanna sem eru tengd vinnu á sjónum
og á skipum eru:
 
 
 • Hættur við að búa og starfa um borð í skipi:
Hætta á að falla fyrir borð
 
Sjóslys ýmiskonar
 
Vegna fjarlægðar frá landi, því þá er langt í heilbrigðisþjónustu ef    eitthvað kemur upp á
 • Hættur tengdar tækjum, vélum og ýmiskonar búnaði um borð
 • Hættur tengdar rafmagni og rafmagnsbúnaði
 • Hættur tengdar ofkælingu og veðráttu
 • Hávaði
 • Titringur frá vél og frá skrúfunni
 • Einangrun
 • Efnaslys
 • Hættur tengdar geislun frá sólu
 • Líkamleg erfiðisvinna og oft einhæf vinna
 
Þessi pistill er á engan hátt öll sagan.
Þetta eru hugleiðingar þegar sest er niður og hugsað yfir víðan völl.
Vonir standa til að bæta við allar upplýsingar eftir því sem hugurinn leyfir og tími vinnst til.