Fyrirspurnir og svör | Sjómannaheilsa
 

Fyrirspurnir og svör
Þetta er almennur upplýsingavettvangur.

Hér geta sjómenn og landvinnslufólk sent inn fyrirspurnir, ábendingar, myndir og jafnvel eigin frásagnir af heilsutengdum málum.

Vinsamlegast sendið á netfangið;  
sjomannaheilsa@sjomannaheilsa.is

 Spurningar og svör
 
 
Sæl verið þið hjá sjómannaheilsu. Ég er 48 ára og vinn á frystitogara. Ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara í svona ófrjósemisaðgerð, hvernig ber ég mig að?
 
Sæll vertu, í daglegu tali er þessi aðgerð oft kölluð herraklipping og er hún framkvæmd af þvagfæraskurðlæknum. Oftast er um að ræða staðdeyfingu, aðgerðin tekur stutta stund og er framkvæmd á einkastofum bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þú finnur þvagfæraskurðlækni í símaskrá, pantar tíma hjá honum, ferð fyrst í viðtal og svo ákveðið þið saman framhaldið.  Þú getur líka skoðað frekari upplýsingar í Rafkveri Vals um þvagfærasjúkdóma undir almenningur   www.internet.is/rafkvervals/
 
Gangi þér vel.

 
Góðan daginn sjómannaheilsa. Ég var í skoðun hjá ykkur um daginn, er með ákveðið vandamál sem ég vil ekki að skipstjórinn minn viti af. Er nokkur hætta á því að þið látið hann vita?
 
Sæll vertu, það sem okkur fer á milli í viðtali fer ekki lengra, allar upplýsingar eru trúnaðarmál og skipstjóri eða útgerð fær ekkert að vita annað en það sem þú vilt að þau heyri
Besta kveðja.

 
Hæ mig langar að spyrja hvort það sé löglegt að taka mann í eiturlyfjapróf ef maður vill það ekki?
 
Sæll, útgerðarfélög geta skikkað menn í eiturlyfjapróf ef fram kemur í ráðningarsamningi að sjómaður samþykki, annars ekki án samþykkis sjómanns.
Kveðja

Fyrirspurn um aðgerð. Mér er sagt að ég þurfi að fara í aðgerð vegna æðahnúta og var að velta fyrir mér að fara í það í desember svo ég geti átt frí um jólin, kallinn vill að ég fari í vor þegar skipið fer í slipp, hver ræður??
 
Sæll þegar um er að ræða aðgerð sem er ekki bráðavandamál höfum við mælt með því að farið sé í hana í samráði við útgerðarfélag eða vinnuveitanda það er sjálfsögð kurteisi að fara ekki sjálfviljugur í veikindaleyfi á versta tíma fyrir vinnuveitanda, endilega hafa hann með í ráðum.
Besta kveðja

 
Halló ráðgjafi. Útgerðin mín vildi ekki borga mér laun um daginn, sögðu að ég væri búinn með veikindaréttinn af því ég hafi verið veikur áður með sama vandamál, mega þeir þetta?
 
Við höfum ekki mikla kunnáttu í kjaramálum sjómanna og vísum þér á að tala við þitt stéttarfélag varðandi þetta. 
Kveðja


Ég er sjómaður og hef aldrei farið í heilsufarsskoðun, við hverju má ég búast?

Venjuleg heilsufarsskoðun hjá hjúkrunarfræðingi tekur um 40-60 mín. Misjafnt er hvort sjómenn mæti árlega eða annað hvert ár.
Skoðunin byggist mikið upp á spjalli um heilsufarssögu þína og almenna líðan.
Þú verður spurður út í lífstíl og lífshætti, eins og hreyfingu og mataræði og hvort þú hafir eða sért tilbúin í einhverjar breytingar hvað þá þætti varða. Við hjálpum þér og komum með lausnir ef þú vilt.
Ef við greinum hjá þér einhverja kvilla eða að þú sért  með áhyggjur af heilsu þinni, þá bendum við þér á leiðir til að finna lausnir á þeim.
Í skoðunninni er líka mældur Bþ, púls, þyngd og hæð og mittismál. Skimað er fyrir sjón og heyrn og almennt blástursmat gert á starfshæfni lungna.
Þú þarft að skila þvagprufu þar sem við mælum t.d. blóð og sykur. Stundum er krafa útgerðarinnar að gerð sé fíkniefnaskimun á þvaginu.
Þú ert síðan beðin að fara í blóðprufu til að mæla almenna þætti eins og t.d. kólesteról, sykur og skjaldkirtilshormón. Þú þarft að vera fastandi í blóðprufunni en hún er ekki framkvæmd í skoðuninni. Heldur mætir þú seinna í hana, þegar þér hentar. 
Allar niðurstöður eru síðan sendar til þín í pósti, nema ef einhver frávik eru þá hringjum við í þig strax.